Utanríkisráðherra Bretlands segir mögulega þurfi að seinka þurfi útgöngunni úr Evrópusambandinu á meðan lögð er lokahönd á nýjan útgöngusáttmála. Hann telur að það muni ráðast af framgangi viðræðna við evrópska ráðamenn á næstu vikum.
Að óbreyttu eiga Bretar að ganga úr Evrópusambandinu 29. mars. Útgöngusamningi Theresu May forsætisráðherra var hins vegar hafnað afgerandi í breska þinginu fyrr í þessum mánuði.
Í atkvæðagreiðslum í þinginu í gær varð tillaga ofan á um að fela May um að semja upp á nýtt um svokallaða baktryggingu varðandi landamæri Írlands og Norður-Írlands. Hún á að koma í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæraeftirlit. Fulltrúar Evrópusambandsins segja hins vegar að þeir séu ekki til viðtals um breytingar á baktryggingarákvæðinu.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segir nú að mögulegt sé að seinka þurfi útgöngutímanum ef nýr samningur næst rétt fyrir 29. mars.
„Þá gætum við þurft örlítið lengri tíma til að samþykkja mikilvægar lagabreytingar,“ sagði hann í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC. Gangi viðræðurnar vel væri þó hægt að komast hjá seinkun.
Mögulegt að fresta þurfi útgöngu Breta úr ESB

Tengdar fréttir

Breska þingið fjallar um fimmtán breytingartillögur við Brexit-samning
Fimmtán breytingartillögur við lagafrumvarp um útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, úr Evrópusambandinu verða til umræðu á breska þinginu í dag. Líkurnar á því að Bretar hætti í Evrópusambandinu án samnings eru taldar aukast á hverjum degi.

May fær umboð til að semja aftur við ESB sem virðist þó ekki vilja semja
Meirihluti þingmanna breska þingsins samþykkti tillögu þess efnis að fella út svokallað Backstop ákvæði úr úrsagnarsamningi Bretlands úr Evrópusambandinu. Theresa May hefur nú umboð til að semja á ný við ESB en forseti Evrópuráðsins segir að ekki sé í boði að semja upp á nýtt.

Segir ekki standa til boða að breyta Brexit sáttmálanum
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, neitar að breyta Brexit samkomulaginu.