
„Hér sjáum við 82% hækkun á launum þessa bankastjóra ríkisbankans frá árinu 2017. Sem er auðvitað úr takti við alla almenna launaþróun í samfélaginu. Langt umfram til dæmis umdeildar kjararáðshækkanir sem stjórnvöld hafa nú brugðist við. Við höfum lagt fram frumvarp um að laun æðstu embættismanna skuli héðan í frá vera fastbundin launaþróun á hinum opinbera markaði. Þannig að mér finnst þessi ákvörðun auðvitað vera úr öllum takti við bæði stefnu stjórnvalda og umræðu samfélagsins þar sem kjaraviðræður standa auðvitað yfir,“ segir Katrín.

Þolinmæði þverrandi
„Þessar eilífu hækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja eru óþolandi. Ríkisbankinn fremstur í flokki að hækka laun á sama tíma og aðrir eru varaðir við vegna kjarasamninga. Bankasýsla ríkisins og bankaráð Landsbankans verða að sýna það í verki að þeim sé treystandi til að stýra fyrirtækjum í almannaeign,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra á Facebook-síðu sinni. Hann útilokar ekki inngrip.„Ef ekki þá verða stjórnvöld að grípa inní með lagabreytingum. Í hreinskilni sagt þá fer þolinmæði mín þverrandi gagnvart þessu rugli.“

Ákvörðunin óverjandi
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gagnrýndi ákvörðunina harðlega í Fréttablaðinu í morgun. Halldór stendur í kjaraviðræðum hjá ríkissáttasemjara við fulltrúa Eflingar, VR og VLFA.„Fréttir sem berast af launahækkun bankastjóra Landsbankans eru slæmar,“ segir Halldór Benjamín.
„Að þetta gerist hjá banka í eigu ríkisins gengur þvert á vilja eiganda bankans og er í senn óskynsamleg og óverjandi ákvörðun að mínu mati. Hækkunartakturinn stenst enga skoðun eða viðmið á vinnumarkaði. Til allrar hamingju er þetta undantekning frekar en regla hjá stærstu fyrirtækjum landsins. Það gerir hins vegar hvorki lítið úr alvarleika málsins né þeim dómgreindarbresti sem birtist í þessari ákvörðun.“