Þetta myndband af hakkaranum er allavega búið til á auglýsingastofu. 99% öruggt.
— Andres Jonsson (@andresjons) 25 February 2019
Fyrr í kvöld ráku margir upp stór augu þegar þeir sáu að öllu hafði verið eytt út af samfélagsmiðlareikningum Áttunnar. Myndbönd á borð við „Neinei“ og „Ekki seena“ voru ekki sjáanleg á YouTube-síðu hópsins og allar Instagram-myndir á bak og burt. Eina sem mátti finna á reikningum hópsins var myndband af huldumanni sem boðaði „útrýmingu Áttunnar“.
Sjá einnig: Brotist inn á samfélagsmiðlareikninga Áttunnar: „Útrýming Áttunnar“
Að sögn Andrésar eru allar líkur á því að innrásin sé útpæld markaðsherferð og Áttan því ekki fórnarlamb tölvuþrjóta í raun og veru.
Nökkvi Fjalar Orrason, einn stofnenda Áttunnar, hélt því fram í samtali við Vísi fyrr í kvöld að hann væri gjörsamlega grandlaus og atvikið hefði komið sér verulega á óvart. Hann biðlaði jafnframt til fólks að setja sig í samband við sig ef það hefði einhverjar upplýsingar.
Andrés vakti athygli á málinu á Twitter-síðu sinni í kvöld og spurði jafnframt hvenær væri í lagi að „ljúga blákalt að fjölmiðlum og almenningi“.
Í hvaða tilvikum MÁ ljúga blákalt að fjölmiðlum og almenningi? :)
— Andres Jonsson (@andresjons) 25 February 2019
Þá hefur verið bent á það að áhorfsfjöldi á YouTube-síðu Áttunnar sé óbreyttur en þrátt fyrir nú sé aðeins myndbandið af „hakkaranum“ á síðunni, sem er með um fimm hundruð áhorf þegar þetta er skrifað, er heildarfjöldi áhorfa á síðunni tæplega fjórar milljónir og má rekja það til vinsælla myndbanda hópsins. Því eru líkur á að myndböndin hafi einfaldlega verið falin tímabundið.

Ef aleiga mín væri einhvers virði þá myndi ég veðja henni á að áttu hakkarinn er áttan sjálf.
— Þóra Sif Guðmunds (@thorasifg) 25 February 2019