Möguleikinn á að fresta útgöngu Breta úr Evrópusambandinu kom til tals á fundi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á leiðtogafundi í Egyptalandi. Frestunin er þó ekki sögð hafa verið rædd af alvöru.
Bretar ætla að ganga úr Evrópusambandinu 29. mars. Enginn útgöngusamningur liggur þó enn fyrir eftir að breska þingið hafnaði samningi sem May bar á borð í janúar. Varað hefur verið við því að útganga án samnings gæti haft mikil og skaðleg áhrif á efnahag Bretlands.
Reuters-fréttastofan hefur eftir breskum embættismanni að May og Merkel hafi tæpt á möguleikanum á að fresta útgöngunni þegar þær hittust á leiðtogafundi Evrópusambandsins og Arababandalagsins í Egyptalandi.
„Þetta var ekki eitthvað sem forsætisráðherrann briddaði upp á,“ sagði embættismaðurinn sem fullyrti að May vildi ekki fresta útgöngunni.
May sagði við fréttamenn þegar hún var á leið til Egyptalands að viðræður hennar við Evrópusambandið hefðu verið jákvæðar og að það væri innan seilingar að ganga úr sambandinu á settum tíma, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hún hefur lofað þingmönnum atkvæðagreiðslu um útgöngusamning 12. mars.
Merkel og May ræddu um að fresta Brexit

Tengdar fréttir

Vilja fresta útgöngu Bretlands úr ESB náist samningar ekki
Ráðherrar í ríkisstjórn Theresu May telja betra að fresta útgöngu en að hrynja út úr ESB án samnings.

Atkvæðagreiðslu þingsins um Brexit frestað
Bretland mun ganga út úr Evrópusambandinu 29. mars.