Þjóðvarðarlið Venesúela beitti í dag táragasi á almenna borgara sem reyndu að liðka fyrir því að landamæri Venesúela og Kólumbíu yrðu opnuð svo hægt væri að koma neyðaraðstoð og hjálpargögnum inn í landið.
Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu og yfirlýstur forseti landsins, hefur heitið því að hleypa neyðaraðstoð inn í landið en sitjandi forseti, Nicólás Maduro, hefur staðið fastur á því að hleypa engri slíkri aðstoð inn í landið.
Stjórnarandstaðan hefur biðlað til almennra borgara að greiða leið flutningabíla, sem eiga að flytja 200 tonn af hjálpargögnum, inn í landið. Hjálpargögnin eru að miklum meirihluta útveguð af Bandarískum yfirvöldum, sem standa fast við bakið á hinum yfirlýsta forseta, Guaidó.
Átökin hófust snemma morguns að staðartíma við landamærabrúnna í Urena, þar sem borgarar hófu að fjarlægja málmvegtálma og gaddavír sem hindraði inngöngu flutningabílanna inn í landið. Þjóðvarðarliðið brást þá við af mikilli hörku og beitti táragasi á mótmælendur, sem sumir hverjir voru grímuklæddir og hentu grjóti í átt að hermönnunum.
Í gær féllu tvö fyrir hendi venesúelskra hermanna og aðrir fimmtán særðust nálægt landamærum Venesúela og Brasilíu þegar borgarar kröfðust þess að hjálpargögnum yrði hleypt inn í landið.
Beita táragasi á mótmælendur sem krefjast neyðaraðstoðar

Tengdar fréttir

Lofar því að neyðaraðstoð berist
Juan Guaido sjálfskipaður leiðtogi Venesúela fullvissaði tugþúsundir stuðningsmanna sinna á fjöldafundi í gærkvöldi að hjálparaðstoð muni berast til landsins, þrátt fyrir að Maduro forseti hafi hingað til komið í veg fyrir birgðaflutningana.

30 milljónir til aðstoðar við flóttafólk frá Venesúela
Íslensk stjórnvöld munu verja þrjátíu milljónum króna til aðstoðar við flóttafólk frá Venesúela með stuðningi við starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Hafnar fullyrðingum um herlið í Venesúela
Bruno Rodriguez, utanríkisráðherra Kúbu, hafnar fullyrðingum ríkistjórnar Donald Trump Bandaríkjaforseta um að Kúba sé með herlið í Venesúela.