Jón Þröstur fór til Dyflinnar ásamt unnustu sinni fyrir mánuði síðan til að taka þátt í pókermóti og skoða kastala. Hann labbaði út af hótelinu um miðjan dag án síma, veskis og vegabréfs og hefur ekki sést síðan. Fjölskyldumeðlimir, vinir, lögreglan í Dyflinni, björgunarsveitir og almenningur hafa leitað hans síðan. Þá hefur málið vakið mikla athygli í Dyflinni þar sem fjölskyldan hefur verið dugleg að ræða við fjölmiðla. Barnsmóðir og mágkona Jóns Þrastar segja fjölmargar ábendingar hafa borist írsku lögreglunni vegna hvarfsins. Leitin hafi þó enn engan árangur borið.
„Lögreglan er enn að fara í gegnum restina af ábendingunum. Við töluðum við þá í gær og þeir eru eiginlega búnir með ábendingarnar úr leitinni sjálfri. Ekkert af þessu hjálpar okkur. Þeir eru búnir að fara í gegnum myndavélar í einkaeigu og flestar þeirra ná ekki út á götuna, sem hann hverfur af, líkt og við héldum að þær mydnu gera,“ sagði Katrín Björk Birgisdóttir, mágkona Jóns Þrastar.
Í dag vinnur írska lögreglan að því að stöðva umferð við gatnamótin þar sem Jón Þröstur sást síðast, í þeim tilgangi að spyrja ökumenn hvort þeir hafi verið varir við ferðir hans.
Barnsmóðir Jóns segir hvarfið taka á börn þeirra sem fá nú andlegan stuðning hjá Rauða krossinum.
„Þetta er bara búið að vera mjög erfitt fyrir þær. Þetta er búið að vera mikið á samfélagsmiðlum sem tók á fyrst. En þær eru mjög glaðar að vita að það sé einhver þarna úti að leita, en jú þetta tekur á,“ sagði Nína Hildur Oddsdóttir, barnsmóðir Jóns Þrastar.
Þrátt fyrir litlar sem engar nothæfar vísbendingar verður leit haldið áfram þar til Jón Þröstur finnst.
„Nei við gefumst ekki upp, það er alveg á hreinu. Hvort sem það verður stór leit eða lítil leit. Einn eða tíu úti þá erum við ekki að fara að hætta fyrr en við finnum hann því við erum ekki að fara að hvílast fyrr en við finnum hann,“ sagði Katrín Björk.
Í kvöld fer fram pókermót til styrktar fjölskyldu Jóns Þrastar sem leitar að honum í Dyflinni.
Hægt verður að styrkja fjölskylduna fram á mánudag.
Reikninganúmer: 0152-05-050935
Kennitala: 280985-3259