Á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir Sturlu Þórðarsyni, skipstjóra, að mikil bræla hafi verið þegar brotið skall fyrirvaralaust aftarlega bakborðsmegin á Beiti.
„Þetta var svakalegt dúndur. Tvö kýraugu í klefa á íbúðargangi aðalþilfars sprungu inn og svonefndar blindlúgur sem loka kýraugunum að innanverðu brotnuðu. Að auki brotnaði gluggi á dekkshúsi á efra þilfari. Sjórinn fossaði inn í umræddan klefa og þar var einn úr áhöfninni sem á endanum stóð í sjó í mitti. Fyrir hann hefur þetta verið einkar óþægileg upplifun,“ Sturla.
Þá segir hann að sem betur fer hafi engin slasast og alltaf megi gera við járn og tré um borð.
Karl Jóhann Birgisson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar segir sjóinn hafa dreifst um allan íbúðargang Beitis og farið inn í alla klefa. Áhöfnin hafi þó fljótt náð að þurrka allt svæðið og þétta kýraugun sem brotnuðu. Ráðist hafi verið í viðgerðir strax þegar Beiti kom í höfn í gær og þeim hafi lokið í gærkvöldi.
