Allt byrjaði þetta fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan. Þá sagði Till á Instagram að enginn þorði í sig. Gunnar svaraði honum og sagðist vera klár í að dansa. Till tók því vel og þeir nánast sömdu um að berjast í spjalli þar.
Svo fór Till í felur er byrjað var að ganga á eftir bardaganum. Kom reyndar í ljós að það var frábær ákvörðun hjá honum. Hann fékk bardaga gegn Stephen Thompson á heimavelli, hafði betur og fékk í kjölfarið titilbardaga gegn Tyron Woodley. Sá bardagi tapaðist aftur á móti.
„Það eru alltaf margir sem vilja berjast við mig. Ég er til í að berjast við Gunnar og veit að hann vill berjast við mig,“ sagði Till við Vísi í gær.
„Aðalmarkmið mitt var alltaf að berjast við Stephen Thompson. Það borgaði sig og ég fékk stærri bardagann þar.“
Till útilokar þó alls ekki að mæta Gunnari á seinni stigum.
„Við verðum að sjá til hvort Gunnar kemst á siglingu en sá bardagi gæti klárlega orðið að veruleika í framtíðinni.“
Gunnar Nelson berst við Bretann Leon Edwards í London næstkomandi laugardag. Bardaginn er í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir er í London og mun fylgjast ítarlega með öllu í aðdraganda bardagans.