Um tíu konur sem barist hafa fyrir kvenréttindum í Sádi-Arabíu komu fyrir sakadóm í Ríad þar sem þeim voru kynntar ákærur í dag. Yfirvöld hafa haldið konunum frá því að þær voru handteknar í fyrra. Mál kvennanna hefur vakið gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi-Arabíu.
Reuters-fréttastofan segir að fréttamönnum og erindrekum hafi verið bannað að fylgjast með þinghaldinu í dag. Konurnar voru handteknar í maí í fyrra, skömmu áður en banni við því að konur ækju bílum var aflétt.
Andófsfólk í Sádi-Arabíu hefur fullyrt að konurnar hafi sætt illri meðferð í fangelsi. Einhverjar þeirra hafi verið í einangrun og þær pyntaðar. Sádar hafa hafnað þeim ásökunum.
Fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna las upp sameiginlega yfirlýsingu 36 ríkja þar sem handtökum og varðhaldi kvennanna og annars baráttufólks fyrir mannréttindum var mótmælt í síðustu viku. Hvöttu ríkin Sáda til að sleppa fólkinu.
Í augum sádiarabískra stjórnvalda höfðu konurnar meðal annars það sér til saka unnið að hafa mótmælt akstursbanninu og því fyrirkomulagi að karlmenn fari með forráð yfir konum.
