„Það er ekki aðeins um að ræða yfirstandandi lífróður WOW, þó vissulega setji staða félagsins ein og sér stórt strik í reikninginn“.
Þetta segir Þorsteinn í stöðuuppfærslu sem hann ritar á Facebook.
„Allar forsendur brostnar áður en prentblekið er þornað.“
Þorsteinn telur upp marga óvissuþætti máli sínu til stuðnings
„Ekkert varð af loðnuvertíð, sem ráð er gert fyrir í efnahagsforsendum stjórnarinnar, ferðamönnum fer fækkandi, fasteignamarkaður sýnir skýr merki kólnunar þessa dagana, verulega hefur dregið úr vexti einkaneyslu og raunar eru flestir hagvísar niður á við þessa dagana. Stjórnendur fyrirtækja hafa ekki verið jafn svartsýnir um langt árabil.“
Þorsteinn segir að þrátt fyrir þessa óvissu sem er uppi hafi ríkisstjórnin ákveðið að stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekkert væri.
„Það fellur þá væntanlega í hlut þingsins að koma áætlun ríkisstjórnarinnar niður á jörðina og aðlaga að þeim efnahagslega veruleika sem við blasir. Fullkomið aðhaldsleysi ríkisstjórnarinnar í fyrstu tveimur fjárlögum hennar sníður þinginu nokkuð þröngan stakk ef takst á að koma í veg fyrir að skera þurfi niður í ríkisfjármálum eina ferðina enn á tímum efnahagslegrar niðursveiflu“.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði þó viðtali í Bítinu í morgun að fjármálaáætlunin byggði á hinum ýmsu spám og gerði ráð fyrir óvæntum útgjöldum en Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, lét í ljós sömu áhyggjur og Þorsteinn.