Þingmenn Suðurkjördæmis funduðu með sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum í dag en fall WOW air hefur gríðarleg áhrif á fjölda starfa á svæðinu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst funda með Suðurnesjamönnum á mánudag.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar segir að huga verði einnig að þeim félagslegu þáttum sem áfall sem þetta geti haft í för með sér.
„Nú veit ég bara ekki hvert planið er hjá ríkisstjórninni. Það er búið að segja að vinnumálastofnun verði styrkt og það er auðvitað augljóst mál að það þarf að gera,“ segir Oddný.
„En það þarf líka að horfa til svæðisins, til Suðurnesja sérstaklega, varðandi heilbrigðisstofnunina, löggæsluna og skólana vegna þess að þetta er vissulega efnahagslegt áfall fyrir mörg heimili á Suðurnesjum en þetta mun líka skapa félagsleg vandamál sem þarf að taka á strax.“

