Brasilíska þingið þarf að samþykkja að haldinn verði viðburður til að fagna því að fimmtíu og fimm ára verða liðin frá valdaráni hersins. Þetta var niðurstaða dómara sem sneri við ákvörðun Jair Bolsonaro, öfgahægrisinnaðs forseta Brasilíu, um að fagna tímamótunum.
Bolsonaro, sem hefur ítrekað mært herforingjastjórnin sem réði ríkjum í Brasilíu í 21 ár, skipaði hernum að undirbúa hátíðarhöld til að minnast valdaránsins árið 1964. Talið er að herforingjastjórnin hafi drepið eða látið hverfa að minnsta kosti 434 Brasilíumenn á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Fjöldi manns til viðbótar var fangelsaður og pyntaður.
Ákvörðun forsetans hafði verið harðlega gagnrýnd. Sjálfur sagði hann viðburðinum ætlað að minnast tímabilsins frekar en að heiðra stjórn hersins í sjálfu sér, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Dómari komst að þeirri niðurstöðu að viðburðurinn stríddi gegn endurreisn lýðræðis í Brasilíu og að þingið yrði að samþykkja að halda hátíðarhöld af þessu tagi.
Bolsonaro var sjálfur liðsforingi í hernum áður en hann sneri sér að stjórnmálum. Enginn embættismaður herforingjastjórnarinnar hefur nokkurn tímann verið sóttur til saka fyrir glæpi sem framdir voru í tíð hennar.
