Hann tekur þó fram að stjórn kjaradeildarinnar hafi ekki fundað eftir að kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum voru undirritaðir í gær og að enn eigi eftir að ræða við bakland félagsins. Þetta sé hins vegar hans skoðun og tilfinning fyrir málinu.
Samningar hjá verkfræðingum sem starfa í opinbera geiranum, það er hjá ríki, borg og sveitarfélögum, losnuðu um síðustu mánaðamót. Samningar aðildarfélaga BHM á opinbera markaðnum losnuðu þá einnig en Verkfræðingafélag Íslands stendur utan BHM.
Birkir segir að viðræður séu ekki hafnar við samningsaðila félagsins á opinbera markaðnum.
„Við höfum aldrei byrjað fyrr en stóru samningarnir hafa verið afstaðnir. En við erum í startholunum, það er búið að skipa í allar samninganefndir og slíkt,“ segir Birkir en enn er verið að vinna í kröfugerðinni.
Birkir segir að nú sé í raun einn kjarasamningur laus hjá verkfræðingum en hver og ein stofnun geri síðan stofnanasamning. Þeir séu þó ekki endilega að renna út þó að kjarasamningar losni enda séu þeir gjarnan ótímabundnir.
Tímabært að gera samning þar sem hlutur þeirra lægst launuðu sé réttur
Samkvæmt samningunum sem undirritaðir voru í gær hækka laun samkvæmt krónutölu en ekki prósentustigum eins og verið hefur venjan í kjarasamningum hérlendis.Krónutöluhækkanirnar þýða að þeir sem lægstu launin hafa hækka hlutfallslega meira í launum en þeir sem hafa hærri tekjur.
Verkfræðingar eru ekki á meðal tekjulægstu hópa samfélagsins. Aðspurður hvort að félagsmenn muni því sætta sig mögulega við það fá hlutfallslega lægri hækkun launa í nýjum kjarasamningum sé mið tekið af samningunum sem undirritaðir voru í gær segir Birkir:
„Við höfum ekki fundað eftir að þessir samningar voru undirritaðir þannig að þetta er meira mín persónulega skoðun. En í fljótu bragði þá finnst mér tímabært að gera svona samning, það er að það sé aðeins verið að rétta hlut þeirra lægst launuðu. Ef það er hluti af einhverri sátt að taka á sig hlutfallslega lægri hækkun þá held ég að sé fólk tilbúið í það.“
Birkir bendir jafnframt á að nýndirritaðir samningar virðast snúast um meira en launahækkanir.
„Þetta virðist mikið til réttindasamningur, til að mynda hvað varðar vinnutímastyttingu, þannig að þetta virðist vera miklu víðtækari samningur en bara um launahækkanirnar,“ segir Birkir.