Gunnar var mættur í Búrið á Stöð 2 Sport til Péturs Marínó Jónssonar þar sem þeir félagar fóru vel yfir bardagann við Edwards.
Eftir kröftuga byrjun Gunnars náði Edwards honum í gólfið í lok fyrstu lotu en Gunnar náði að halda það út. Í annari lotu náði Edwards svo kröftugum olnboga í andlitið á Gunnari svo hann bólgnaði allur upp undir hægra auganu.
„Ég var alveg fínn þarna [þegar olnboginn kemur] þegar ég var kominn í jörðina, auðvitað er þetta ekki ákjósanleg staða en ég var ekkert sérstaklega illa farinn,“ sagði Gunnar.

Hann féll til jarðar eftir olbogann og þá komst Edwards ofan á hann og lét höggin dynja.
Lotunni lauk og lýsti Pétur því að hann hafi verið mjög svartsýnn fyrir hönd Gunnars á þeim tímapunkti. Í hléinu á milli lota nær teymi Gunnars að þrýsta bólgunni vel niður og meiðslin, sem litu ansi illa út, hindruðu honum ekki í þriðju lotunni.
„Þú sérð alveg þarna að augun eru alveg á sínum stað, en ég vissi ekki hverju hann hefði slegið mig með. Hann nær helvíti góðum vinkli út frá hægri hendinni, ég teygi mig of mikið út í þessa hægri hendi, allt of mikið.“
Í þriðju lotu náði Gunnar að koma Edwards í vænlega stöðu í gólfinu. Hann hafði hins vegar ekki nægan tíma til þess að láta Edwards almennilega finna fyrir sér. Bardaganum lauk með dómaraúrskurði og var Edwards dæmdur sigur.
Yfirferð Gunnars um aðra lotuna má sjá í brotinu hér að neðan en hann fer yfir allan bardagann með Pétri í Búrinu sem er á dagskrá á Stöð 2 Sport á föstudagskvöld klukkan 21:45.