Sú hugmynd að leggja sæstreng til að selja raforku frá Íslandi til Evrópu hefur blandast inn í hatramma umræðu um þriðja orkupakkann, sem nú er í meðförum Alþingis.
„Mér kemur nú á óvart þessi mikla andstaða núna. Ef menn eru á móti sæstreng þá er það sjónarmið út af fyrir sig.
En ég sé ekki að þessi þriðji orkupakki gefi neitt tilefni til þess að vera með óánægju gagnvart honum, vegna sæstrengs. Hann liðkar ekki fyrir sæstreng,“ segir Ketill, sem skrifar reglulega um orkumál og rekur ráðgjafafyrirtækið Askja Energy.

„Raforkuverð til almennings á Íslandi gæti hækkað. En ég held að það sé mikilvægara að hafa í huga að um áttatíu prósent af raforkuframleiðslu á Íslandi fer til stóriðju og almenni markaðurinn er mjög lítill hluti af honum.
Þetta er auðlind sem er að mestu í þjóðareigu. Landsvirkjun er þar langumsvifamest. Þannig að það er mjög mikilvægt að arðurinn af auðlindinni aukist og sala um sæstreng er líkleg til að gera það.“
Þannig geti sæstrengur þrýst upp verði gagnvart stóriðju.
„Það blasir náttúrlega við. Kúnninn hinumegin við strenginn er í samkeppni við þá. Og ef að sá kúnni býður hærra verð þá er líklegra að stóriðjan hérna sé tilbúin að teygja sig eitthvað upp í verði.
En hún hefur samt einhver þolmörk. Hún getur ekki farið endalaust upp þannig að þar þarf að hafa eitthvað jafnvægi,“ segir Ketill.

„Við vitum það ekki fyrr en við látum reyna á viðræður. Og það er kannski það sem hefur vantað. Það hefur vantað alvöru viðræður, við til dæmis bresk stjórnvöld, um hvað nákvæmlega er í boði,“ segir Ketill.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: