Nokkrar vikur eru síðan kom fram að Skúli Mogensen fyrrverandi eigandi WOW Air ásamt lykilstarfsmönnum hugðist endurvekja rekstur félagsins og kaupa hann út úr þrotabúi félagsins. Skiptastjórar WOW Air búsins sögðu fyrir nokkrum vikum að mikil tímapressa væri á þeim sem vildu kaupa rekstrarhlutann og það kæmi í ljós á allra næstu dögum hvort WOW yrði endurreist.
Engar fregnir hafa hins vegar borist um að Skúla og félögum hafi tekist að safna nægu fé til að endurreisa félagið. Í dag þegar fréttastofa hafði samband sagðist Skúli ekki hafa neitt um málið að segja.

„Efnislegar eignir eins og merktar flugvélar, flughæfni, viðhaldssamningar, flugmannaðgengi og þjónustuhandbækur og fleira er flokkað undir verðmæti að það hefði tekist eða gæti tekist að fara yfir í nýtt félag með sama mannskap, sama slott á flugvöllum og fleira þá felur slíkt í sér efnisleg verðmæti en svona lagað úreldist bara mjög hratt,“ segir Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu.
Við fall WOW Air var flugrekstrarleyfi félagsins skilað til Samgöngustofu en það tekur um þrjá mánuði að fá slíkt leyfi. Þórólfur segir að ef fyrirætlanir um endurreisn flugfélagsins takist þrátt fyrir tímarammann ætti ekki að taka langan tíma að fá leyfið. Það sé hins vegar háð því að sami mannskapur, samningar og eignir séu til staðar og var hjá WOW air.
„Ef og þegar vel undirbúnar umsóknir berast þá er hugsanlega hægt að afgreiða flugrekstrarleyfið á styttri tíma en þremur mánuðum.“