KR tapaði í gær fyrsta leik úrslitaeinvígis Domino's deildar karla fyrir ÍR eftir framlengingu í DHL höllinni í Vesturbænum. Fyrir leikinn hélt Finnur smá lofræðu um Pavel.
Finnur var þjálfari Pavel hjá KR þar til síðasta vor þegar hann hætti hjá KR eftir að hafa stýrt þeim svarthvítu til fimmta Íslandsmeistaratitilsins í röð.
„Mig langaði bara að fá smá tækifæri til þess að tala um þennan einstaka mann,“ sagði Finnur í upphitun Domino's Körfuboltakvölds fyrir leikinn í Frostaskjólinu í gær.

Pavel var í liði KR öll síðustu fimm ár þegar þeir hömpuðu titlinum, þrjár seríur hvert ár gera 15. Hann er svo búinn að vinna tvær í ár og hann var í liði KR sem vann titilinn 2011. Hann var í Svíþjóð í atvinnumennsku frá 2011 til 2013 þegar hann snéri aftur heim.
„Pavel er þannig að hann er ekki allra. Hans látbragð er stundum þannig, það er neikvætt, og hann hefur oft gert hluti sem fara í taugarnar á mönnum. Og hann viðurkennir það, og ég viðurkenni það fúslega, að hann er ekki auðveldasti maðurinn til að þjálfa.“
„En menn verða líka að átta sig á því að Pavel var eitt sinn talinn einn efnilegasti leikmaður í Evrópu. Það sem fylgir því, vonbrigðin að ná ekki að verða sú hetja í atvinnumennskunni, það fékk mikið á hann.“
„En fyrir mér er Pavel Ermolinskij búinn að blanda sér í þá umræðu að vera besti leikmaður, mest „dominerandi“ leikmaður í sögu Íslandsmótsins í körfubolta,“ sagði Finnur.
„Hann er að mínu mati þremur sigrum frá því að verða einfaldlega sá besti í sögu Íslandsmótsins með því að vinna sjötta árið í röð.“
Pavel er eini leikmaðurinn sem hefur verið í KR-liðinu í gegnum alla fimm Íslandsmeistaratitlana.
„Það var erfitt fyrir hann að hafa ekki náð þessum hæðum í atvinnumennskunni sem hann ætlaði sér. Þetta hefur setið í honum og böggað hann og ég veit það.“
„En núna er hann þremur sigrum frá því að setja nafn sitt í söguna. Hann er þremur sigrum frá því að kannski loksins ná frið og ró yfir þessari óheppni sem hann varð fyrir í atvinnumennskunni,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson.
Leikur tvö í einvígi KR og ÍR er á föstudaginn, 26. apríl klukkan 20:00, í Hertz hellinum, Seljaskóla og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.