Fótbolti

Glódís Perla inn­siglaði sigur og meistara­titil Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar marki sínu fyrir Bayern München í dag ásamt liðsfélögum sínum Pernille Harder og Jovanu Damnjanovic.
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar marki sínu fyrir Bayern München í dag ásamt liðsfélögum sínum Pernille Harder og Jovanu Damnjanovic. Getty/Alexander Hassenstein

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir var á skotskónum í dag þegar Bayern München tryggði sér þýska meistaratitilinn.

Bayern vann þá 3-1 sigur á Freiburg á heimavelli og er fyrir vikið komið með ellefu stiga forystu á toppi deildarinnar. Wolfsburg, sem er i öðru sæti, á leik inni en á ekki lengur möguleika á að ná efsta sætinu.

Glódís Perla byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 75. mínútu. Fjórum mínútum síðar hafði hún komið Bayern liðinu í 3-1 og innsiglað sigurinn.

Lea Schüller kom Bayern í 1-0 á 20. mínútu en Svenja Fölmli jafnaði metin fyrir Freiburg á 28. mínútu.

Hin danska Pernille Harder kom Bæjurum aftur yfir á 67. mínútu og síðan var komið að frábærri innkomu okkar konu.

Þetta var annað deildarmark Glódísar á tímabilinu en það fyrsta síðan í nóvember.

Hún hefur verið meidd en það er gleðiefni að sjá hana snúa aftur inn á völlinn og kórónaða það með því að innsigla meistaratitilinn.

Þetta er þriðja árið í röð sem Bayern verður þýskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×