Fótbolti

Leikbann á versta tíma en Kane lofar því að fagna meira en allir í liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane er aðeins einum sigri frá því að verða þýskur meistari með Bayern München sem yrði hans fyrsti titill á löngum ferli.
Harry Kane er aðeins einum sigri frá því að verða þýskur meistari með Bayern München sem yrði hans fyrsti titill á löngum ferli. Getty/F. Noever

Harry Kane mun missa af næsta leik Bayern München í þýsku deildinni eftir að hafa fengið gult spjald í sigrinum á Mainz í gær.

Bayern vantar hins vegar bara einn sigur í viðbót til að tryggja sér titilinn sem yrði þá sá fyrsti á ferli Kane. Nú er ljóst að hann verður í leikbanni á móti RB Leipzig um næstu helgi, í leiknum sem er líklegt er að langþráði titilinn komi loksins í hús.

„Þetta var ekki það besta í stöðunni en við unnum leikinn. Það er ekki heldur eins og þetta sé úrslitaleikur um næstu helgi,“ sagði Vincent Kompany, þjálfari Bayern um spjaldið og leikbannið hjá Kane.

„Við spilum 34 leiki á tímabilinu og meiddir leikmenn eins og þeir Jamal [Musiala], Alphonso [Davies], Dayot Upamecano og [Hiroki] Ito munu líka fagna titlinum með okkur,“ sagði Kompany sem vann marga titla sem leikmaður Manchester City.

„Þú átt líka að fagna öllum titlum eins og hann sé sá fyrsti á ferlinum. Ég held því að þetta skipti ekki mikli máli fyrir Harry,“ sagði Kompany.

Kane skoraði ekki á móti Mainz en er kominn með 24 deildarmörk á tímabilinu og er á góðri leið með að verða markakóngur á tveimur fyrstu tímabilum sínum í Þýskalandi.

„Þetta var fáránleg ákvörðun,“ sagði Harry Kane um gula spjaldið sitt. „Svona er bara sagan mína og ég missi af Leipzig leiknum. Hafið samt engar áhyggjur, ég mun fagna meira en allir í liðinu,“ sagði Kane eftir leikinn og það verða örugglega mörg augu á honum á laugardaginn, bæði á meðan leik stendur sem og eftir hann ef titilinn kemur í hús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×