Fótbolti

Varamennirnir sáu um ó­trú­lega endur­komu Ísaks og fé­laga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Varamaðurinn Danny Schmidt treður öðru marki sínu inn.
Varamaðurinn Danny Schmidt treður öðru marki sínu inn. Roland Weihrauch/picture alliance via Getty Images

Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar hans í Fortuna Düsseldorf nældu í ótrúlegt stig er liðið gerði 3-3 jafntefli gegn FC Nürnberg í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Ísak og félagar þurftu sárlega á stigum að halda í baráttu sinni um sæti í þýsku úrvalsdeildinni, en útlitið var ekki gott fyrir liðið eftir að Janis Antiste og Mahir Emreli sáu til þess að gestirnir fóru með 0-2 forystu inn í hálfleikshléið.

Julian Justvan bætti svo þriðja marki gestanna við eftir klukkutíma leik og staðan orðin afar erfið fyrir heimamenn í Düsseldorf.

Varamaðurinn Danny Schmidt minnkaði hins vegar muninn fyrir Düsseldorf á 68. mínútu, aðeins fjórum mínútum eftir að hafa komið inn af bekknum. Þremur mínútum síðar bætti hann svo öðru marki við og hleypti heldur betur lífi í leikinn.

Það var svo annar varamaður, Shinta Appelkamp, sem jafnaði metin fyrir heimamenn á 79. mínútu og endurkoman því fullkomnuð.

Ekki urðu mörkin fleiri og niðurstaðan varð 3-3 jafntefli í ótrúlegum leik. Ísak og félagar sitja nú í sjötta sæti deildarinnar með 49 stig eftir 31 leik, aðeins einu stigi á eftir Magdeburg sem situr í þriðja sæti sem gefur umspilssæti um sæti í efstu deild.

Nürnberg situr hins vegar í áttunda sæti með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×