Þjónustubeiðni barst ekki Isavia vegna hjólastóls sem eigandi beið eftir í tæpa tvo klukkutíma á Keflavíkurflugvelli, eins og sagt var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær. Upplýsingafulltrúi Isavia segir unnið að því með hagsmunaaðilum að tryggja að fatlaðir og hreyfihamlaðir fái eins góða þjónustu á vellinum og kostur er.
Fjölskylda Magnúsar Jóels Jónssonar beið í um eina og hálfa klukkustund eftir sérútbúnum hjólastól hans við komuna til Keflavíkur á dögunum.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að flugfélag sjái um að flytja hjólastólinn milli landa. Flugþjónustufyrirtæki affermi vélina og komi hjólastólnum til starfsmanna á vegum Isavia, sem í þessu tilviki hafi verið starfsmenn Securitas, sem afhendi svo eiganda stólinn.
„Það virðist sem að eitthvað hafi rofnað í þessari keðju. Í þessu tilviki virðist hafa verið sú staðreynd að þjónustubeiðni var ekki stofnuð og barst ekki,“ segir Guðjón.
Sem sagt einhver fyrr í kveðjunni þá heldur en þið?
„Já.“
Burtséð frá því hvort það var flugfélag eða ferðaskrifstofa sem gleymdi að panta þjónustu fyrir Magnús Jóel sagði formaður Öryrkjabandalagsins í hádegisfréttum Bylgjunnar að algengt væri að fólk kvartaði yfir þjónustu vegna hjólastóla á Keflavíkurflugvelli.
”Við viljum að sjálfsögðu haga því þannig að þessi þjónusta sé eins góð og eins vel unnin og á verður kosið. Og við viljum vinna með öllum hagsmunaaðilum til að tryggja að fólk fái bestu þjónustuna.”
