Fjallað var um stöðu gyðingdómsins á Íslandi á vef Ozy í gær. Þar segir meðal annars að erfitt sé að áætla fjölda gyðinga á Íslandi, en talið er að þeir geti verið á bilinu núll og upp í nokkur hundruð. „Ástæðan fyrir hinu nákvæma núlli er nokkuð einföld: Stjórnvöld á Íslandi viðurkenna ekki gyðingdóm sem trúarbrögð hvorki lagalega né opinberlega.“ Fjöldi gyðinga í þjóðskrá sé því eðli máls samkvæmt núll, en gyðingar hér á landi eru flestir sagðir skrá sig utan trúfélaga.
Það hefur því verið í verkahring fyrsta rabbínans með fasta búsetu á Íslandi, Avi Feldman, að breyta því. Allt frá því að hann kom hingað til lands með fjölskyldu sinni í fyrra hefur hann unnið að því að gera gyðingdóm að möguleika við trúfélagsskráninguna í Þjóðskrá, ferli sem sagt er einkennast af skrifræði og fjölda lagalegra hindrana.

Í umfjöllun Ozy er þessi andstaða sett í samhengi við Eurovision, sem fram fer í Tel Aviv eftir tæplega tvær vikur. Fulltrúar Íslands hafa boðað gjörning gegn Ísrael, auk þess sem þúsundir Íslendinga kröfðust þess að keppnin yrði sniðgengin með öllu. Þá er sérstaklega minnst á ummæli Páls Óskars Hjálmtýssonar, sem hann lét falla um Gyðinga og Ísrael í upphafi febrúar.
„Ástæðan fyrir því að restin af Evrópu þegir þunnu hljóði er sú að gyðingar eru búnir að sauma sig inn í Evrópu á mjög lúmskan hátt á mjög löngum tíma. Það er alls ekki hip og kúl að vera „pro-Palestína“ í Bretlandi,“ sagði Páll Óskar og bætti við að gyðingar væru orðnir eins og sinn „ógeðslegasti óvinur“ í stað þess að læra af sögunni.
„Tragedían er sú að gyðingar lærðu ekki neitt af Helförinni. Í staðinn umbreyttust þeir í nákvæma afsteypu af sínum ógeðslegasta óvini.“
Bæði Páll og Feldman eru þó vongóðir á að trúfélagsskráningin muni ganga í gegn fljótlega, líklega á næstu 12 mánuðum. Þá verði í fyrsta sinn hægt að fá nákvæmari upplýsingar um fjölda íslenskra gyðinga.
Feldman vinnur auk þess að því að koma á laggirnar fyrstu sýnagógunni á Íslandi, eins og Vísir greindi frá í fyrra. Reykjavík hefur lengi verið eina höfuðborg Evrópu sem ekki hefur haft neinn bænastað fyrir gyðinga eða rabbína.