Landsréttur úrskurðaði að Isavia hafi verið heimilt að hamla för flugvélarinnar, TF-GPA, og nota hana sem tryggingu fyrir greiðslu þeirra gjalda sem WOW air skuldaði Isavia. Landsréttur staðfesti þar með úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá því í byrjun mánaðar.
Oddur Ástráðsson lögmaður ALC sagði að fyrirtækið líti svo á að Isavia megi þannig halda flugvélinni fyrir allri skuld WOW air við Isavia, sem nemur tveimur milljörðum króna. ALC þurfi því að reiða fram milljarðana til að losa þotuna.

„Við höfum ítrekað, síðustu vikunnar, bent bæði lögmönnum ALC og eins líka forráðamönnum ALC á þann möguleika að leggja fram bankatryggingu fyrir heildarskuldinni. Við erum ekki að fara fram á það að fá peningana greidda inn á bankareikning,“ sagði Sveinbjörn.
„Við viljum mjög gjarnan að þessi flugvél fari að fljúga sem allra fyrst.“
Inntur eftir því hvort að málið hafi legið þungt á fyrirtækinu sagði Sveinbjörn að fullvissa um ákvæði í loftferðalögum um kyrrsetningu flugvéla, sem Isavia beitti fyrir sig í málinu, vegi þar þyngst.
„Það sem hefur legið þungt á okkur er það að það hefur verið ákveðin óvissa um beitingu ákvæðisins. Við höfum beitt þessu ákvæði áður og talið okkur vera í fullum rétti að gera það. Og hér erum við komin með staðfestingu á að við höfum verið að beita ákvæðinu með réttum hætti.“
Viðtalið við Sveinbjörn og frétt Stöðvar 2 um málið má horfa á í spilaranum efst í fréttinni.