Rætt var við Sigurð Hannesson framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og Þorstein Þorsteinsson hagfræðing í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun um áhrif tollahækkana Bandaríkjastjórnar á heimshagkerfið, hag almennings, fyrirtækja og Ísland.
Þeir eru sammála um að aðgerðirnar muni verða sársaukafullar til skemmri tíma fyrir alþjóðavðskipti. Sigurður segir að tíminn muni leiða í ljós hvort tollarnir muni auka viðskiptajöfnuð líkt og Bandaríkjastjórn leggi upp með.
Tekur langan tíma að koma í ljós
„Hvort þetta sé lækningin, það tekur langan tíma að koma í ljós. Vegna þess bara, Að flytja framleiðslu á milli svæða, byggja upp framleiðslugetu, það er mælt í árum. Í sjálfu sér vitum við ekki hvernig það þróast, hvort þessi tilraun tekst upp eða ekki, það þarf tíminn að leiða í ljós. Þangað til verða mikil áhrif þar til rykið sest.“
Sigurður segir ljóst að leikreglum í alþjóðaviðskiptum hafi verið breytt. Hann kallar eftir því að íslensk stjórnvöld aðlagi sig að breyttum veruleika.
„Núna þegar ytri skilyrði eru að versna fyrir okkur og leikreglurnar að breytast, þarf að fylgjast með því. Sjáum það í umræðunni að stjórnvöld eru að horfa til þess að leikreglurnar séu að breytast. Það þýðir ekki endilega að spila gamla leikinn áfram og fylgajst. Stjórnövld hér þurfa að vinna að því hörðum höndum að efla samkeppnishæfni iðnaðarins og atvinnulífsins.“