Sameinuðu arabísku furstadæmin fullyrða að mestar líkur séu á því að ríki hafi fyrirskipað árásir á olíuflutningaskip undan strönd landsins á dögunum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem furstadæmin létu framkvæma og kynnt var á lokuðum fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Árásirnar voru gerðar 12. maí síðastliðinn og beindust að fjórum skipum í heildina. Rannsakendur segja þær hafa verið afar vel skipulagðar sem bendi til að ríki frekar en hryðjuverkasamtök hafi staðið þar að baki. Beindust þær einnig að skipum frá Sádi-Arabíu og Noregi.
Ekki er tilgreint um hvaða ríki gæti verið að ræða en Bandaríkjamenn hafa kennt Íran um þær. Íranir þvertaka hins vegar fyrir það og hafa farið fram á að málið verði rannsakað af óvilhöllum aðila.
Samkvæmt rannsókninni var árásin gerð á þann hátt að kafarar fóru að skipunum og festu á þau sprengju. Markmiðið hafi verið að valda skemmdum en ekki að sprengja skipin í loft upp.
Segja ótilgreint ríki bera ábyrgð á árás á olíuflutningaskip
Atli Ísleifsson skrifar
