Skoðun

Mál sem skipta máli

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram mörg mikilvæg frumvörp á þessu þingi sem nú sér fyrir endann á. Tvö frumvörp sem fela í sér mikla réttarbót hafa nú þegar verið samþykkt, annars vegar breytingar á lögum um nálgunarbann og hins vegar mál sem bætir stöðu barna sem missa foreldri. Fjöldi annarra mála sem hafa mikil áhrif á heimili og atvinnulíf í landinu bíður afgreiðslu. Ég bind miklar vonir við að þessi mál hljóti þó framgang á þessu kjörtímabili.

Þingmenn flokksins hafa lagt fram skattalækkanir, m.a. um lækkun erfðafjárskatts að hluta til niður í 5%. Þarna ráða meðal annars sanngirnissjónarmið enda hafa verðmætin sem mynda skattstofn erfðafjárskattsins verið skattlögð áður. Þá liggja fyrir tvö frumvörp um afnám stimpilgjalda. Annað um afnám stimpilgjalda á stærri skipum, sem er eina atvinnutækið sem enn ber stimpilgjald. Hitt er frumvarp um afnám stimpilgjalds einstaklinga við kaup á íbúðarhúsnæði, það munar um minna þegar fólk kaupir sér fasteign.

Annað mál sem hefur áhrif á fasteignaverð er frumvarp sem felur í sér fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðar- og verkamanna við húsbyggingar. Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins einnig lagt fram frumvörp sem er ætlað að styðja við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, auðvelda iðnnemum að sækja háskólanám, endurgreiða virðisaukaskatt til góðgerðar- og félagasamtaka vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda auk þess sem lagt er til að þau félög sem eru undanskilin tekjuskatti verði einnig undanskilin fjármagnstekjuskatti. Þá leggja þingmenn til frumvarp sem auðveldar kynslóðaskipti í atvinnurekstri, t.d. bújarða, og um lagningu vegar í gegnum Teigskóg.

Þetta er ekki tæmandi listi en allt eru þetta mál sem snerta fólk. Þetta eru mál sem gera það að verkum að fólk heldur meira af sínu eigin fé, auðveldar uppbyggingu og starfsemi félaga, gefa fjölbreyttara námi meira vægi, hjálpa til við fasteignakaup og eða styrkja innviði samfélagsins í víðu samhengi. Þannig störfum við og þannig munum við starfa áfram.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×