Í myndbandinu sést Tikhomirov meðal annars keyra utan vega, leggja ólöglega á þjóðvegi eitt og ganga á afgirtum svæðum. Bæði á svæði sem verið er að vernda fyrir ágangi og á afgirtu hverasvæði.
Einnig birtir Alexander mynd af því þegar hann á í orðaskiptum við lögregluna vegna utanvegaakstursins og þegar grafa kemur akandi til þess að ná bílnum upp.
Um 25 þúsund höfðu horft á myndbandið þegar Fréttablaðið fór í prentun og það á einungis tveimur dögum. Myndbandið gefur afar skakka mynd af því hvernig ber að umgangast íslenska náttúru og aksturslagi á vegum landsins.
Landeigendur í Mývatnssveit hafa gert tveggja milljóna króna fjárkröfu á hendur Tikhomirov vegna skemmdanna samkvæmt fréttastofu Vísis. Tikhomirov hlaut einnig sekt fyrir utanvegaaksturinn upp á 450 þúsund krónur.