Skoðun

Nýr veruleiki 

Hörður Ægisson skrifar
Líklega hefur hagkerfi Íslands sjaldan tekið eins miklum stakkaskiptum á jafn skömmum tíma. Það er nánast sama hvert er litið. Á aðeins örfáum árum hefur Ísland breyst frá því að vera jafnan með viðvarandi viðskiptahalla í fjármagnsútflytjanda, byggt upp stóran gjaldeyrisforða á meiri hraða en dæmi eru um hjá nokkru öðru ríki, skuldir ríkissjóðs hafa farið ört lækkandi og nema aðeins um 30 prósentum af landsframleiðslu, þjóðhagslegur sparnaður er í hæstu hæðum og eignastaða þjóðarbúsins við útlönd er jákvæð um 600 milljarða. Sökum þessara sterku stoða, sem birtist okkur meðal annars í því að ríkið getur nú sótt sér erlent fjármagn á hagstæðari kjörum en áður hefur þekkst, er orðið raunhæft að ætla að Ísland færist nær því að vera í hópi lágvaxtaríkja í náinni framtíð.

Það er við þessar fordæmalausu efnahagsaðstæður sem nýr seðlabankastjóri verður skipaður síðar á árinu. Sextán manns sækjast eftir embættinu, sumir eiga talsvert meira erindi í stólinn en aðrir, og sérstök hæfisnefnd vinnur nú að því að meta hæfi umsækjenda. Þótt skipunarvaldið sé formlega í höndum forsætisráðherra má ganga að því sem vísu að val á seðlabankastjóra, einu mikilvægasta og valdamesta embætti landsins, sé ákvörðun af þeim toga að hún verði tekin í sameiningu af stjórnarflokkunum þremur. Þá er mikilvægt að hafa í huga að niðurstaða hæfisnefndarinnar, sem virðist hafa nálgast verkefni sitt með sérstæðum hætti, er á engan hátt bindandi heldur aðeins leiðbeinandi.

Verðandi seðlabankastjóra bíður vandasamt verkefni. Til stendur að fjölga bankastjórum í fjóra – einn aðalseðlabankastjóra og þrjá varabankastjóra sem skipta með sér verkum – og þá verður bankinn og Fjármálaeftirlitið sameinað. Við þá sameiningu, sem er rétt og löngu tímabær ákvörðun, verður til þrjú hundruð manna stofnun með heildarsýn á hagkerfið. Í þeirri vegferð má öllum vera ljóst að það skiptir sköpum að sá sem verður skipaður seðlabankastjóri búi yfir raunverulegri og framúrskarandi stjórnendareynslu, helst af fjármálamarkaði, og hafi eins sýnt það í störfum sínum að viðkomandi geti leitt farsællega til lykta verkefni af slíkri stærðargráðu. Með þau skilyrði að leiðarljósi kvarnast mjög úr hópi umsækjenda sem ættu að koma til greina í embættið.

Trúverðugleiki og umgjörð peningastefnunnar hefur vissulega batnað til muna síðustu ár. Meira máli skiptir hins vegar sú kerfisbreyting sem hefur orðið á grunngerð hagkerfisins. Nú þegar einu lengsta hagvaxtarskeiði lýðveldissögunnar er lokið þá hafa vextir Seðlabankans samt farið lækkandi og standa nú aðeins í fjórum prósentum. Sögulega séð sætir það stórtíðindum og að óbreyttu má fullyrða að vextirnir verði komnir undir þrjú prósent áður en langt um líður. Nýr efnahagsveruleiki blasir nú við, sem grundvallast á sjálfstæðri mynt og Seðlabanka sem hefur yfir að ráða 800 milljarða gjaldeyrisforða í vopnabúrinu, þar sem allar vaxtabreytingar, hversu litlar sem þær eru hverju sinni, munu ráða miklu um væntingar fjárfesta og markaðsaðila. Aldrei áður hefur verið eins mikilvægt að næsti seðlabankastjóri hafi til brunns að bera þekkingu og skilning á samspili fjármálamarkaða og atvinnulífs. Hver það verður er ákvörðun forystumanna ríkisstjórnarinnar með þeirri pólitísku ábyrgð sem henni fylgir. Það hlutverk getur aldrei verið framselt til andlitslausra nefndarmanna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×