Að sögn Ásu Ottesen, systur Jónu, fer ástand Jónu batnandi. Hún er komin úr öndunarvél og aðlagast því nú að vera án hennar. Hún er þó enn á gjörgæslu og verður þar áfram uns hún verður tilbúin að taka næstu skref í endurhæfingarferlinu.
„Hún er mjög skýr og meðvituð um sig og okkur. Þannig að ég myndi segja að þetta væri allt í rétta átt.“
Ása segir Uglu, dóttur Jónu sem var einnig í bílnum þegar slysið varð, hafa sloppið ómeidda.
„Hún fékk smá sár á hælinn, en það þurfti ekki að sauma eða neitt. Hún slapp ótrúlega vel. Það sést ekkert á henni núna,“ segir Ása.
Dansað til styrktar og heiðurs Jónu
Styrktarviðburðurinn sem skipulagður er af Kramhúsinu og Kennarahúsinu, sem fram fer 16. júní næstkomandi, ber yfirskriftina „Kátt í Kramhúsinu“ og er dans- og fjölskylduhátíð þar sem fólk á öllum sviðum lífsins getur dansað eins og vindurinn og styrkt gott málefni í leiðinni. Hátíðin fer, eins og nafnið kann að gefa til kynna, fram í Kramhúsinu við Skólavörðustíg.Vigdís Arna, verkefnastýra Kramhússins, segir nafn viðburðarins vera vísun í barnahátíðina „Kátt á Klambra,“ sem Jóna hefur undanfarin ár staðið fyrir. Hátíðin verði hins vegar ekki haldin í ár, en þess í stað nafni hennar haldið á lofti með þessum hætti.

Klukkan 16-18 verður hins vegar skrúfað aðeins upp í hitanum og boðið upp á tíma í Broadway-dansi, dansi við tónlist frá tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar, afródans og Beyonce-dansa þar sem mjaðmasveiflur og gellulæti verða í fyrirrúmi, eins og segir á vef viðburðarins.
Vigdís telur líklegt að færri komist að en vilji og hvetur því fólk til þess að tryggja sér aðgang að viðburðinum í tæka tíð. Stakir tímar kosta á bilinu 2500 til 4000 krónur, en einnig er hægt að styrkja átakið um aðrar upphæðir án þess að skrá sig á námskeiðið á vef Kramhússins. Þar er einnig hægt að sjá dagskrá viðburðarins.
Allt fé sem safnast í tengslum við viðburðinn rennur óskipt inn á styrktarreikning Jónu Elísabetar, þar sem allir sem taka þátt í verkefninu gefa vinnu sína í þágu fjáröflunar fyrir endurhæfingu Jónu.
Þá er einnig tekið við frjálsum framlögum inn á styrktarreikninginn:
528-14-401998, kt. 701111-1410.