Myndbandsdómgæslan í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili mun ekki hafa heimild til þess að dæma á markmenn fyrir að stíga af marklínunni í vítaspyrnum.
Riðlakeppni HM kvenna í fótbolta klárast í dag en þrisvar sinnum hafa víti verið endurtekin á mótinu til þessa eftir að myndbandsdómarar dæmdu að markmenn hefðu farið af marklínunni áður en spyrnan var tekin.
Í breytingunum sem gerðar voru á knattspyrnulögunum nýlega og tóku gildi 1. júní var meðal annars sett sú regla að þegar vítaspyrna er tekin verði markmaður að hafa að minnsta kosti annan fótinn á marklínunni, eða ef markmaður er hoppandi þegar spyrnan er tekin þá þurfi annar fóturinn að vera samsíða marklínunni.
Þessi regla hefur verið tekin mjög alvarlega á HM kvenna í Frakklandi og síðast í gær var markvörður Skota fyrir barðinu á þessari reglu. Seint í leik Skota og Argentínu fékk Argentína vítaspyrnu í stöðunni 3-2 fyrir Skota. Lee Alexander varði spyrnuna frá Florencia Bonsegundo en var dæmd brotleg. Bonsegundo skoraði í annarri tilraun, leiknum lauk með 3-3 jafntefli og bæði lið því líklega úr leik í keppninni, í það minnsta eru Skotar á heimleið.
Þessi harða dómgæsla hefur verið harðlega gagnrýnd.
„Ef markmaðurinn þarf að standa á línunni og getur ekki staðið á bakvið hana, þá getum við næst bara sagst ætla að binda hendur fyrir aftan bak,“ sagði sérfræðingur BBC Pat Nevin.
„Það hefur aldrei verið auðveldara í sögu fótboltans að skora úr vítaspyrnu.“
Yfirvöld dómgæslumála á Englandi (e. Professional Game Match Officials Board) ætla ekki að láta myndbandsdómarana dæma um þessa reglu á komandi leiktíð, en myndbandsdómgæsla verður notuð í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta skipti næsta vetur.
