Arnór Ingvi Traustason er ekki fótbrotinn eins og óttast var eftir hrottalega tæklingu sem hann varð fyrir í leik Malmö og Djurgården í gær.
Íslenski landsliðsmaðurinn var borinn af velli rétt fyrir lok fyrri hálfleiks eftir að leikmaður Djurgården fór ansi harkalega í sköflunginn á honum.
Eftir leikinn sagði þjálfari Malmö að hann óttaðist að Arnór væri fótbrotinn.
Sjúkraþjálfari Malmö, Jesper Robertsson, staðfesti við heimasíðu félagsins í dag að svo er ekki.
„Við getum staðfest að það eru engin beinbrot í fætinum eða ökkla. Hins vegar sýndu skoðanir okkar fram á alvarleg meiðsl á liðböndum í ökkla,“ sagði í tilkynningunni.
Ekki er búist við því að Arnór þurfi að fara í aðgerð en sjúkrateymið gat ekki gefið neitt upp með hversu lengi hann yrði frá.
Brotið má sjá hér á vef Fotbollskanalen.
Arnór Ingvi ekki brotinn

Tengdar fréttir

Óttast að Arnór verði lengi frá: „Tækling sem getur gert út um ferilinn“
Þjálfari Arnórs Ingva Traustasonar hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Malmö var brjálaður út í Haris Radetinac eftir leik Malmö og Djurgården í gær vegna tæklingu Radetinac á íslenska landsliðsmanninn.

Arnór Ingvi borinn af velli í jafntefli Malmö
Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason var borinn út af á börum í leik Malmö og Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.