Elís var þekktur í Færeyjum fyrir útvarpsþætti sína á borð við Lurtarnir og vit, Tit skriva vit spæla og Upp á tá sem var á dagskrá á föstudagskvöldum þar sem Elís lék danstónlist fyrir Færeyinga. Hann var einnig með sjónvarpsþættina Túnatos þar sem hann fjallaði um mannlíf í Færeyjum.
Á færeyska vefnum Portal kemur fram að Elís hafi glímt við alvarleg veikindi undanfarin ár.
Bogi Ágústsson, fréttamaður á RÚV, minnist Elis á Facebook-síðu sinni en hann segir Elís hafa verið einstaklega ljúfan og yndislegan mann sem var sérlega greiðvikinn. Átti Elís marga vini hér á landi en hann gekk í skóla á Íslandi og býr systir hans Marentza hér.