Skoðun

Nýi talsmaður kjötinnflytjenda

Ólafur Stephensen skrifar
Sigmar Vilhjálmsson, nýráðinn talsmaður FESK, Félags eggja-, svína- og kjúklingabænda, var í dálítið kostulegu viðtali á Bylgjunni í gærmorgun. Viðtalið gekk út á það hvað innflutningur á svína- og alifuglakjöti væri varasamur.

Sigmar sagði að flutt væru inn 12% neyzlu af kjúklinga- og svínakjöti. Það er reyndar ekki rétt tala; á síðasta ári voru flutt inn um 16% heildarneyzlu á alifuglakjöti og 18% af neyzlu svínakjöts. En hvað um það; Sigmar sagði að með þessum innflutningi væri í fyrsta lagi komið í veg fyrir að bændur gætu fjárfest í sínum rekstri. Í öðru lagi væri skrýtið að vera að flytja inn mat í sömu gæðaflokkum og við gætum framleitt sjálf. Í þriðja lagi sagði Sigmar að það að innlend framleiðsla væri til staðar, héldi uppi gæðum innflutnings – menn kæmust þá ekki upp með að flytja inn lélega vöru. Það er reyndar í mótsögn við röksemdina á undan, en það var ekki út úr karakter í þessu viðtali. Í fjórða lagi sagði Sigmar að takmörkun innflutnings væri heilbrigðismál; innflutta kjötinu gætu fylgt fjölónæmar bakteríur.

Eitt mikilvægt atriði gleymdist í viðtalinu. Það eru íslenzkir bændur, verksmiðjubú og afurðastöðvar, sem standa fyrir meiripartinum af öllum innflutningi alifugla- og svínakjöts á tollkvótum samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins, sem Sigmar var einmitt svo gagnrýninn á í viðtalinu. Margir þeirra eru félagsmenn í búgreinafélögunum sem standa að FESK.

Mata, systurfélag kjúklingaframleiðandans Matfugls og svínakjötsframleiðandans Síldar og fisks (Ali) flytur þannig inn tæplega 600 tonn af svína- og alifuglakjöti á ESB-tollkvóta á þessu ári og er einn umsvifamesti kjötinnflytjandi landsins. Kjúklingaframleiðandinn Reykjagarður, dótturfélag Sláturfélags Suðurlands, flytur inn 90 tonn. Stjörnugrís, stærsti svínaræktandi landsins, sem er jafnframt eigandi Stjörnueggja, flytur inn 60 tonn af sömu kjöttegundum.

Samtals flytja íslenzkir svína- og kjúklingakjötsframleiðendur inn rúmlega 87% ESB-tollkvótans fyrir svínakjöt á árinu 2019 og tæplega 45% tollkvótans fyrir alifuglakjöt.

Hefði nýi talsmaðurinn ekki þurft að lesa sér betur til áður en hann réðist svona beint á eigin félagsmenn og þeirra óábyrga innflutning?

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×