25 fíkniefnamál komu upp á Þjóðhátíð en grunur er um sölu og dreifingu efnanna í tveimur málanna. Fíkniefnamál á Þjóðhátíð voru 35 í fyrra, 47 árið 2017, 30 árið 2016 og 72 árið 2015. Lýsir lögregla yfir ánægju með fækkun málanna og segir í tilkynningu að öflugt fíkniefnaeftirlit skili greinilega árangri.
„Að mati lögreglu var minna um fíkniefnaneyslu á hátíðinni nú en áður. Fíkniefnaleitarhundar eru ávallt notaðir við leit á þjóðhátíð og auka þeir árangur og gæði eftirlitsins. Notkun leitarhundanna hefur ótvírætt forvarnargildi.“
Önnur brot á Þjóðhátíð um helgina voru tvö eignaspjöll, einn þjófnaður, ein hótun, einn nytjastuldur, brot á reynslulausn, sex áfengislagabrot, tvö tilfelli ölvunaraksturs og einn var stöðvaður fyrir fíkniefnaakstur.
Fíkniefnahundar og sérsveitarmenn
Þá telur lögregla að um 15.000 manns hafi sótt Þjóðhátíð nú um helgina, sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Lögregla hélt úti miklum viðbúnaði á hátíðinni en samtals sinntu 27 lögreglumenn löggæslu á þremur lögreglubifreiðum, auk 130 gæslumanna sem lúta stjórn lögreglu.Tveir sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra voru til aðstoðar lögreglu á sérútbúnum bíl. Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinntu fíkniefnaeftirliti og höfðu sér til aðstoðar 3-4 fíkniefnaleitarhunda. Starfandi læknir var í Herjólfsdal, auk heilbrigðisstarfsfólks, áfallateymis, Barnaverndar og sjúkraflutningamanna og gengu allir sólarhringsvaktir.
Í tilkynningu segir að vel hafi gengið að sinna þeim 222 verkefnum sem komu á borð lögreglu á Þjóðhátíð. Umferð í Herjólfsdal hafi gengið vel en hún hafi verið verulega þung á álagstímum. Þá hafi viðbragðsaðilar í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd unnið gott starf og sinnt fjölmörgum.