Fjögurra mánaða strandveiðitímabili umhverfis landið fer að ljúka en á tímabilinu er hverjum strandveiðibát heimilt að stunda veiðar í tólf veiðidaga innan hvers mánaðar í maí, júní, júlí og ágúst. Gerðar voru breytingar á strandveiðikerfinu í fyrra. Í stað þess að úthluta kvóta fyrir hvert veiðisvæði var landið allt gert að einum potti en sumir töldu að með breytingunum mundi það bitna á svæðum þar sem veiði er mest seinni part sumars, sem það virðist hafa gert.
Heimilt er að veiða á handfæri allt að 11.100 lestir af óslægðum botnfiski en í fyrra tókst aðeins að veiða níutíu og sex prósent af heildaraflanum. Staðan virðist ætla verða svipuð í ár.
Hafa áhyggjur af stöðunni
Heimamenn á Hólmavík segja að strandveiðin sjaldan eða aldrei verið jafn slök. Strandveiðitímabilinu lýkur mánaðamótin ágúst september og líkur á að veiðiheimildir verði ekki fullnýttar.Hvernig hefur strandveiðin gengið á þessu tímabili?
„Hún hefur eiginlega, því miður, gengið hræðilega,“ segir Sigurður Marínó Þorvaldsson, hafnarvörður á Hólmavík.
Sigurður segir að strandveiðimenn þurfi nú að sigla lengra en áður og að margir bátanna séu hæggengir. Áður hafi þeir veitt í Steingrímsfirði.
„Í fyrra var verið að landa hérna um tvö hundurð tonn. Það eru komin hundrað og tíu tonn í ár,“ segir Sigurður.
Svipuð staða á Hornafirði
Svipuð virðist sagan á suðausturhorni landsins en smábátafélagið Hrollaugur á Hornafirði sendu á dögunum áskorun til sjávarútvegsráðherra um að leyfa strandveiðar í september eða þar til að áætluðu heildaraflamagni til strandveiða yrði náð.Sigurður er því sammála og segir að veðurfarslega aðstæður ættu ekki að koma í veg fyrir það. Hann segir strandveiðimenn ekki sátta með fyrirkomulagið.
„Auðvitað leggst þetta alveg skelfilega í þá og þeir eru auðvitað ekki sáttir og það eru einhverjir bátar sem hafa bara farið héðan, til dæmis norður í Árneshrepp, sem er gott fyrir þá. En þetta er hræðilegt fyrir okkur að missa þessa báta og vonandi breytist þetta og við förum að fá meiri fisk hérna inn,“ segir Sigurður.