„Í rauninni má segja að við séum algjörlega í myrkrinu í þessu máli. Tilkynning kom bara á heimasíðu SÍ fyrir nokkrum dögum og við vitum í rauninni ekkert,“ segir Unnur.
María Heimisdóttir, forstjóri SÍ, segir lengi hafi legið fyrir að breytt yrði um innkaupaferli frá því sem verið hefur og að breytingarnar hefðu ekki átt að koma neinum á óvart. „Það eru þrjú ár síðan lögunum var breytt svo þetta ætti ekki að koma neinum á óvart,“ segir María og bætir við að mikilvægt sé fyrir alla sem stundi viðskipti að þekkja viðskiptaumhverfi sitt.

Rammasamningurinn rann út í febrúar en enn er starfað eftir þeim samningi. „Þetta hefur gengið með ágætum með þessu fyrirkomulagi frá 1973 þannig að maður er eiginlega bara agndofa yfir því að það eigi að fara að kollsteypa hlutunum og samkvæmt því upplýsingaleysi sem snýr að okkur þá hef ég enga sérstaka trú á því að þeir [SÍ] viti hvar þeirra skip kemur að landi með þetta mál,“ segir Unnur.
María segir ástæðu breytinganna þríþætta. „Samningar voru lausir svo það var nauðsynlegt að koma þessu í nýjan formlegan farveg. Svo hafa orðið breytingar á lögum um opinber innkaup sem við erum í rauninni að laga þetta kerfi að og í þriðja lagi er það þekkt að kostnaður vegna þessarar þjónustu hefur farið töluvert umfram það sem heimild er til á fjárlögum. Svo þetta er auðvitað líka liður í því að laga kostnaðinn að fjárlögum,“ segir María.