Í dag, þann 1. september, var virðisaukaskattur lækkaður á tíðavörur og getnaðarvarnir. Alþingi samþykkti þann 11. júní síðastliðinn að lækka virðisaukaskatt á slíkar vörur úr efra þrepi niður í það neðra. Breytingin gerir það að verkum að virðisaukaskatturinn lækkar úr 24 prósentum niður í 11 prósent.
Talsmenn frumvarpsins töluðu fyrir því að vörurnar væru nauðsynjavörur fremur en munaðarvörur og ættu því frekar heima í neðra skattþrepi. Til samanburðar hafi getnaðarvarnir karla lengi verið í neðra skattþrepi. Því hefur verið haft á orði að um „bleikan skatt“ væri að ræða sem lagðist einungis á nauðsynjavörur kvenna.
Með breytingunni falla bæði einnota og margnota tíðavörur á borð við dömubindi, tíðatappa og álfabikarar í lægra þrep virðisaukaskatts. Það sama á við allar tegundir getnaðarvarna. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af þessum virðisaukaskatti hljóðuðu upp á 37,9 milljónir árlega.
Fram kemur í frumvarpinu að markmið breytingarinnar sé að stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðgengi fólks að mismunandi formum getnaðarvarna.
