Stjórn Sorpu skýrði frá því síðustu mánaðamót að gera þyrfti breytingar á fjárfestingaráætlun samlagsins vegna viðbótarkostnaðar upp á einn komm fjóra milljarða króna.
Annars vegar var um að ræða viðbótarkostnað vegna byggingar nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu í Álfsnesi og síðan hafi gleymdist að setja 720 milljónir króna í áætlunina vegna tækjabúnaðar í stækkaða móttökustöð. Fram kom að Sorpa ætlaði að mæta þessu með því að taka viðbótarlán upp á milljarð.
Sorpa er byggðasamlag og eiga sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samlagið. Þannig lagði Reykjavík til tvo þriðju af stofnfé, Hafnarfjörður og Kópavogur lögðu til ríflega einn tíunda. Garðabær og Mosfellsbær fara með innan við 5% af stofnfénu, Seltjarnarnes um 3% og Bessastaðarhreppur innan við 1%.
Sveitarfélögin þurfa öll að samþykkja viðbótarlánið og hafa þau öll samþykkt nema Seltjarnarnesbær. Samkvæmt heimildum fréttastofu liggur á að lánið verði samþykkt til að gera haldið áfram með framkvæmdir við gas-og jarðgerðarstöðina.
Magnús Örn Guðmundsson forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness sagði í samtali við fréttastofu að bæjarstjórnin hafi ekki fundist skýringar Birkis Jóns Jónssonar formanns stjórnar Sorpu og Björn Halldórssonar framkvæmdastjóra á viðbótarkostnaðinum og mistökunum í fjárfestingaráætluninni nógu góðar á fundi í síðustu viku. Málinu hafi því verið frestað.
Á fundinum hafi bæjarstjórn rætt um hvort ekki ætti að bíða eftir úttekt á málum Sorpu áður en ákvörðun verði tekin. Sorpa hafi sýnt slæmt fordæmi í rekstri. Hann segir enn fremur að á fimmtudaginn verði bæjarstjórnarfundur og málefni Sorpu séu ekki á dagskrá fundarins. Það þýði þó ekki að málið verði ekki tekið fyrir enda liggi á að leysa það.
Sorpa bíður niðurstöðu Seltjarnarnesbæjar
Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
