Flogið var með áætlunarflugi frá Reykjavíkurflugvelli upp úr hádegi. Þetta er í raun „opinber" heimsókn en má ekki heita svo þar sem Grænland er ekki sjálfstætt ríki og kallast því „formleg" heimsókn.
Fyrir brottför gáfu forsetahjónin sér tíma í stutt spjall. Forsetinn segir gott að heimsækja góða granna og gaman að fylgjast með framtíðinni á Grænlandi.
„Það er bjart framundan á Grænlandi, ef vel er á málum haldið. Miklir möguleikar á sviði útvegs, ferðaþjónustu, samgangna, - miklar framkvæmdir framundan, þannig gaman að fylgjast með þessu, og treysta enn frekar þau vinabönd sem eru milli Íslendinga og Grænlendinga,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

„Já, ég verð með Guðna, - fer mikið. Svo ætla ég líka að hitta fólk frá UNICEF þar því ég er verndari hér fyrir Sameinuðu þjóðafélag hér á Íslandi, fannst þetta mjög mikilvægt,“ sagði Eliza Reid.
Framundan var þriggja stunda flug til höfuðstaðarins Nuuk. Flugstjórinn Ólafur Georgsson tók á móti þeim við landganginn og bauð þeim að ganga um borð um leið og forsetabílstjórinn kvaddi.
Auk funda og hátíðarkvöldverða með ráðamönnum Grænlands eru á dagskránni meðal annars heimsóknir í þjóðþingið í Nuuk, þjóðminjasafnið, háskólann en einnig í miðstöð loftslagsrannsókna, Kofoeds skólann og Royal Arctic Line-skipafélagið. Heimsókninni lýkur á miðvikudagskvöld.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: