Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir að vel komi til greina að setja lög sem skylda foreldra til að bólusetja börn sín. Þetta sagði hann á landsþingi Íhaldsflokksins, sem fram fer í Manchester.
Á þinginu sagðist Hancock hafa miklar áhyggjur af hlutfallslegri fækkun þeirra foreldra sem bólusetja börn sín. Ábyrgðin vegna hættulegra smitsjúkdóma gæti ekki aðeins verið á höndum ríkisins heldur verði foreldrar að axla hluta hennar.
„Ég tel að það séu mjög sterk rök fyrir því að hafa skyldubólusetningar í skólum landsins,“ sagði Hancock. „Annars er verið að setja önnur börn í hættu.“
Bólusetningar hafa áður verið skylda í Bretlandi, til dæmis um miðja 19. öld þegar bólusett var fyrir bólusótt. Fyrir þremur árum var Bretland stimplað mislingalaust en landið missti stimpilinn á þessu ári eftir að hundruð mislingatilfella komu upp. Boris Johnson forsætisráðherra hefur heitið því að tryggja nægt bóluefni en margir óttast að skortur verði á mislingabóluefni eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
