Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar í morgun þar sem innrás Tyrkja á yfirráðasvæði Kúrda í Norður-Sýrlandi sem hófst í síðustu viku var til umræðu. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd óskaði eftir því að ráðherra kæmi fyrir nefndina.
„Mér fannst nú ráðherra ekkert sérstaklega skýr, hann var nú svona meginhluta fundarins í hlutverki fréttaþular og fór yfir það sem hefur verið að gerast síðustu daga,“ segir Logi.

Viðbrögð Íslands „misráðin og aulaleg“
Íslensk stjórnvöld hafi þó send yfirvöldum vestanhafs bréf þar sem málið hafi verið harmað. Þá var spurt á fundi utanríkismálanefndar í morgun hvort þetta myndi hafa áhrif á nýlega endurnýjaðan fríverslunarsamning við Tyrki. „Ráðherra taldi að það hefði ekkert verið rætt og væru engin fordæmi fyrir slíku. Þannig að mér finnst viðbrögð okkar vera hálfloðin og aulaleg,“ segir Logi.Íslensk stjórnvöld fordæmdu aðgerðir Tyrkja í síðustu viku með formlegum hætti en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld hafi komið skoðun sinni á framfæri við bandarísk yfirvöld. „Teljum að þessi ákvörðun hafi verið mjög misráðin. Það er líka mín skoðun að Bandaríkjamenn, sem stærsta og öflugasta lýðræðisríki heims, hafi hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi. Það eru ekki allir þeirrar skoðunar en það er mín skoðun og ég styrkist bara í henni,“ segir Guðlaugur Þór.
Kemur til greina af þinni hálfu að endurskoða fríverslunarsamning við Tyrki?
„Stóra málið er núna á þessum tímapunkti, það er að reyna að lágmarka þann skaða sem að nú þegar hefur orðið og gerum hvað við getum, með þeim þjóðum sem að standa okkur næst, í að beita Tyrkjum þrýstingi til að svo megi verða,“ svarar Guðlaugur Þór.