Aðeins fjórar keppnir eru eftir af tímabilinu og er Hamilton með 64 stiga forskot í keppni ökuþóra. Það er því bara spurning um hvenær ekki hvort Lewis tryggi sér titilinn.
Mercedes er nú þegar búið að tryggja sér titil bílasmiða, en Toto Wolff, stjóri liðsins, er þó ekki vongóður um góð úrslit í Mexíkó um helgina.
,,Þessar fjórar keppnir sem eftir eru verða erfiðar, sérstaklega Mexíkó, þar sem brautin hentar okkar bíl illa'' sagði Toto í vikunni.

Hamilton hefur unnið tvo síðustu titla sína í Mexíkó en býst ekki við því að tryggja hann þar í ár. Hann býst við að Ferrari verði allsráðandi um helgina.
Þar sem brautin er mjög ofarlega yfir sjávarmáli er loftið mjög þunnt. Það þýðir að vængirnir virka minna og vélin verður aflminni.
Hár hámarkshraði Ferrari bílanna mun hjálpa gríðarlega um helgina þar sem ráskafli brautarinnar í Mexíkó er mjög langur. Því telja flestir að rauðu bílarnir verði þeir hröðustu um helgina.
Æfing, tímatökur og kappaksturinn sjálfur verður að sjálfssögðu allt í beinni á Stöð 2 Sport um helgina. Kappaksturinn byrjar klukkan 18:50 á sunnudaginn.