Lögmaður Freyju, Sigurður Örn Hilmarsson, var í málflutningi sínum mjög gagnrýninn á að vegna þess að Freyja njóti NPA-aðstoðar þá muni hún ekki sinna barninu sjálf. Hann sagði að í lögum um NPA væri sérstaklega fjallað um þetta og hvernig aðstoðin miði að því að aðstoða fólk við foreldrahlutverk. Gert sé ráð fyrir því að NPA sé notuð svo fólk geti uppfyllt skyldur sínar sem uppalendur.
Þannig sé aðstoðin tryggð í lögum, en á sama tíma útiloki hún Freyju frá fósturhlutverkinu. Að segja að hún geti ekki gert eitthvað sjálf, þegar hún nýtur slíkrar aðstoðar, sé dæmi um óbeina mismunun.
Hann velti því einnig fram hvað það sé nákvæmlega sem Barnaverndarstofa meini þegar talað er um að Freyja geri eitthvað sjálf. Hún hafi verið með NPA í 12 ár, hún hafi lokið tveimur háskólagráðum, setið á þingi og sinnt fjölbreyttum störfum.
„Gerði hún þetta ekki sjálf? Og ef ekki, hver þá?“ spurði Sigurður í málflutningi sínum í Hæstarétti.

„Í grunninn eru þetta viðhorf sem hefði mátt gera ráð fyrir fyrir 30 árum, en virðast koma fram hér og þar í andstöðu við nútímaviðhorf til þessara mála, sem og lagasetningar um notendastýrða persónulega aðstoð. Sem á að tryggja fólki sjálfstætt líf, sjálfstæða búsetu, gera því kleift að taka þátt í samfélaginu og komast yfir þær hindranir sem fylgja fötluninni. En allt er þetta túlkað gegn þeim og gegn Freyju, þannig að aðstoðin sem er ætlað að yfirvinna fötlunina er orðin að hindrun,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið.
Sigurður segir málið eitt skýrasta dæmið úr stjórnsýslunni þar sem fatlað fólk mætir fordómum.
„Í tilfelli Freyju leiddu fordómarnir til þess að hún fékk ekki tækifæri til að vera metin á eigin verðleikum lögum samkvæmt á matsnámskeiðinu,“ segir Sigurður.
Hann segir að kjarni málsins snúist um rétt Freyju til sömu málsmeðferðar og aðrir og að hún fái þannig að sitja námskeiðið og vera metin, en að ekki verði litið fram hjá því að ástæðan fyrir því að hún fékk ekki að sitja námskeiðið sé mismunun sem sé byggð á fordómum um hvað hún geti og geti ekki gert.