Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun til að ræða veru Íslands á gráum lista FATF-hópsins yfir ríki sem ekki hafa nægar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nefndarmenn og ráðherrar voru sammála um að það væri bagalegt að Ísland sé á listanum og að ríkið geti beðið álitshnekki sökum þessa.
Sjá einnig: Segir engar vísbendingar um veruleg áhrif af veru Íslands á gráum lista
„Það var töluvert mikil óvissa um það hverjar afleiðingarnar gætu orðið og við lögðum í talsverða vinnu við að greina það á öllum sviðum og höfum síðan fylgst með því. Það er óhætt að segja að afleiðingarnar hafa verið afskaplega takmarkaðar fram til þessa en það skiptir samt sem áður miklu máli að tryggja að við förum af listanum sem allra fyrst,” segir Bjarni.

„Þetta er nú dálítið ófyrirsjáanlegt og ógagnsætt vegna þess að það er samkomulag um að það sé ekki talað um það hvernig einstök ríki á vettvangnum ráðstafa sínu atkvæði," segir Bjarni
Dómsmálaráðherra segir að þegar hafi verið brugðist við öllum þeim atriðum sem eftir standa. „Við fjármálaráðherra ætlum að vinna skýrslu um heildarmyndina, hvað stjórnkerfið okkar hefur gert og lagt á sig síðustu misseri til að vera með þessi mál í lagi, við viljum að þau séu í lagi og við teljum að við höfum lagt í mikla vinnu í að svo sé,” segir Áslaug Arna.