Sjö manna valnefnd mun velja hvaða tíu lög munu keppast um að verða framlag Íslands í Eurovision árið 2020. Alls voru 157 lög send inn í Söngvakeppnina í ár, eða 25 fleiri en í fyrra. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.
Eurovision verður haldið í Rotterdam í Hollandi á næsta ári eftir ljóst varð að Amsterdam gæti ekki fundið stað til þess að hýsa hátíðarhöldin. Því varð Rotterdam niðurstaðan og mun keppnin fara fram dagana 12., 14. og 16. maí.
Sjá einnig: Eurovision haldið í Rotterdam árið 2020
Í umræddri valnefnd eru fulltrúar frá RÚV, Félagi íslenskra hljómlistarmanna og Félagi tónskálda- og textahöfunda. Lögin eru send inn undir dulnefni og mun nefndin því ekki vita hverjir standa að baki lögunum.
Undankeppni Söngvakeppninnar fer fram í Háskólabíó dagana 8. og 15. febrúar á næsta ári og úrslitakvöldið verður svo haldið í Laugardalshöll þann 29. febrúar. Að sögn Bjargar Magnúsdóttur, sem situr í framkvæmdastjórn keppninnar, er ljóst að meiri áhugi sé á keppninni nú en áður.
