Ekki hefur verið hægt að staðfesta með algjörri vissu að blóðið hafi verið úr Millane. Sýnatökur sýna þó að það sé fimm hundruð milljón sinnum líklegra að blóðið hafi verið úr henni en nokkrum öðrum.
Sjá einnig: Myndbönd varpa ljósi á stefnumótið í aðdraganda morðsins
Millane, sem var 22 ára, hafði verið á ferð ein síns liðs um Nýja-Sjáland í tvær vikur er hún týndist þann 1. desember síðastliðinn. Lík hennar fannst viku síðar. 27 ára karlmaður, sem Millane kynntist á stefnumótaforritinu Tinder, er ákærður fyrir að hafa kyrkt hana í íbúð sinni og grafið líkið rétt fyrir utan borgarmörk Auckland.

Þá kom einnig fram við réttarhöldin í dag að hinn grunaði hafi þegar sagt lögreglu frá blóðinu. Tveir stórir blóðblettir, sem hann er sagður hafa gert tilraun til að þrífa, fundust við rúm hans. Á myndum sem sýndar voru í dómsal sjást blettirnir greinilega með hjálp luminols, efnis sem iðulega er notað til að greina blóð á vettvangi glæpa.
Blóð, sem nær allar líkur eru á að hafi verið úr Millane, fannst einnig á ísskáp í íbúðinni. Þá sýndi rannsókn fram á að „einhver með blóð á iljunum“ hefði gengið um herbergið.
Engin fíkniefni fundust í blóði Millane við krufningu. Hún var þó með mikið áfengi í blóðinu en líkt og fram hefur komið fóru hún og hinn ákærði á stefnumót, þar sem þau drukku áfenga drykki, áður en hún var myrt.

Komið hefur fram að maðurinn hafi m.a. leitað að því á netinu hvernig best væri að „losa sig við lík“, eftir að hann á að hafa myrt Millane. Þá sló hann einnig inn leitarstrengina „fuglar sem éta hold“ og „eru hrægammar á Nýja-Sjálandi?“. Daginn eftir morðið fór maðurinn svo á Tinder-stefnumót með annarri konu. Lík Millane var þá í ferðatösku í íbúð hans. Hann er sakaður um að hafa grafið líkið í ferðatöskunni rétt fyrir utan borgarmörk Auckland.