Fíkniefnið spice fannst nýverið í rafrettum hjá unglingum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem málið er sagt mikið áhyggjuefni.
Spice telst til „nýmyndaðra kannabínóíða“, að því er segir í tilkynningu. Þar er vímugjafinn í kannabisplöntunni búinn til efnafræðilega og er mun sterkari en efnið úr kannabisplöntunni sjálfri. Nafnið er til komið vegna þess að það líkist oft kryddi eða er blandað í krydd.
Í tilkynningu lögreglu segir að hegðun unglinganna sem áttu í hlut hafi leitt til þess að afskipti voru höfð af þeim. Lagt var hald á rafrettur og veipvökinn úr þeim sendur til rannsóknar á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Vökvinn reyndist innhalda spice, auk nikótíns. Málið er unnið í samráði við barnaverndaryfirvöld.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu vill hvetja forráðamenn barna og unglinga til að vera á varðbergi.
„Efnið er nánast lyktarlaust, en á meðal skammtímaáhrifa þess eru mikil gleði og ánægja. Aukinn hjartsláttur, hár blóðþrýstingur, ofskynjanir, ofsóknaræði, kvíðaköst og árásargirni eru hins vegar á meðal alvarlega aukaverkana af notkun efnisins,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Þá er jafnframt vísað í umfjöllun Vísis og Stöðvar 2 um Spice nú í haust um neyslu efnisins meðal fanga á Litla-Hrauni. Talið er að efnið hafi verið nokkuð lengi að berast hingað til lands en samt sem áður sé full ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mála.

