Þegar okkur finnst við fá að ‘vera með’ í starfshópi fáum við viðurkenningu á því að við séum í lagi eins og við erum, og það lætur okkur líða vel og okkur finnst við vera örugg. Ekkert er okkur mikilvægara en að upplifa öryggi, og margar af ákvörðunum okkar í lífinu hafa með það að gera. Til að mynda sækjum við í fólk sem okkur líður vel með, og við reynum að velja lífsförunauta og vini með þetta í huga. Hvað varðar vinnu þá veljum við okkur vinnu, en við veljum yfirleitt ekki vinnufélaga.
Það skiptir máli hvaðan neikvæð samskipti koma
Við erum viðkvæm fyrir neikvæðum samskiptum frá fólki sem skiptir okkur máli. Þegar við upplifum neikvæða framkomu frá vinnufélögum eigum við oft erfitt með að verja okkur og setja mörk. Við jafnvel vitum hvað við eigum að segja og gera, en gerum það ekki. Við drögum okkur frekar til baka og forðumst ágreining. Við viljum að láta þetta líða hjá og fá áfram að tilheyra hópnum. Þörf okkar til að tilheyra er það sterk að við viljum ekki taka of mikla áhættu eða búa til vesen, af ótta við að verða ýtt út úr hópnum og fá ekki frekari framgöngu á vinnustaðnum. Af þeim sökum er erfiðast að verjast framkomu frá vinnufélögum sem við upplifum valdameiri á vinnustaðnum en við erum sjálf. Það gefur því auga leið að erfitt er að mæta neikvæðri framkomu frá yfirmanni og setja honum mörk vegna valdamismunarins. Sama á við um framkomu frá öðrum starfsmönnum sem við upplifum í sterkari stöðu en við, m.a. þeir sem hafa unnið lengur á staðnum, eru lykilstarfsmenn og eru með sterka félagslega stöðu á vinnustaðnum.Af hverju skiptir þetta máli? Það getur haft verulegar afleiðingar fyrir okkur að verða endurtekið fyrir neikvæðri framkomu frá vinnufélögum, þegar við finnum ekki leið til að verjast henni sjálf, og upplifa að enginn af hópnum kemur okkur til varnar. Þessi reynsla getur tekið öryggið frá okkur (þið munið að ekkert er okkur mikilvægara en öryggið) og valdið okkur mikilli vanlíðan og jafnvel heilsubresti í verstu tilfellunum. Allir sem tilheyra vinnustað ættu að hafa þetta í huga og endurspeglar þetta þá ábyrgð sem við berum með því að vera hluti af hópi. Ef allir leggjast á eitt við að huga vel að samskiptum sínum í vinnunni og við berum virðingu fyrir því að við erum ólík þá líður öllum betur og vinnustaðurinn verður betri.
Höfundur er sálfræðingur hjá Líf og sál sálfræði- og ráðgjafastofu.