Eftir ræðuhöldin steig hljómsveitin Hatari á svið og tók nokkur vel valin lög. Á lagalistanum var meðal annars lagið Spillingardans, sem þeir segjast hafa spilað til heiðurs Samherja.
„Samherji er augsýnilega ein best smurða svikamylla samtímans. Stjórn Svikamyllu ehf. bað okkur því að skila þeim hamingjuóskum í tilefni dagsins. Það ætlum við að gera með því að spila lagið Spillingardans, félaginu til heiðurs,“ sagði Matthías Tryggvi Haraldsson, liðsmaður Hatara, í samtali við fréttamann.
Jafnframt tók Hatari undir kröfurnar sem lagðar voru fram og ítrekuðu beiðni um nýja stjórnarskrá.
„Við hvetjum þingheim til að kæfa ekki nýju stjórnarskránna í móki meðalmennskunar.“
Þá vakti það athygli viðstaddra að Hatararnir voru mættir til leiks í nýjum búningum, heldur ólíkum þeim sem þeir hafa hingað til verið þekktir fyrir. Sveitin sem hingað til hefur verið þekkt fyrir ögrandi leðurbúninga var mætt til leiks smjörgreidd í jakkafötum. Sjálfir kalla þeir búninginn „kapítalistabúning andskotans“.