Greint var frá því í morgun að Arngrímur hefði verið handtekinn vegna meintra ólöglegra veiða innan 200 sjómílna landhelgi í Namibíu. Dómari krafðist tryggingagjalds upp á 830 þúsund krónur vegna Arngríms sem mun vera einn fimm skipstjóra sem hafa verið handteknir undanfarnar vikur í aðgerðum yfirvalda í Namibíu.
Það sé þó þannig að hann sé skipstjóri á skipinu Heinaste sem er í eigu félags sem Samherji er stór hluthafi í.
„Það voru ásakanir um að hann hefði farið inn fyrir línu. Ég veit ekki annað en að hann mótmæli því. Arngrímur mun örugglega svara fyrir þetta. Ég hef þekkt hann í langan tíma og hann mun svara fyrir þetta þegar hann verður og kemst til landsins,“ segir Björgólfur.
Dómari lagði hald á vegabréf Arngríms og krafðist þess að hann gæfi sig fram við lögreglu á þriggja vikna fresti. Fram kom í namibískum miðlum í morgun að lögmaður Arngríms hefði krafist afhendingar vegabréfsins svo hann gæti farið til Íslands og sinnt veikindum í fjölskyldu sinni.

Nokkuð er síðan hið meinta brot hafi átt sér stað, að sögn Björgólfs. Hann þekki málið þó ekki í þaula.